Einn skemmtilegasti úrslitaleikur HM sögunnar fór fram í kvöld er Argentína og Frakkland áttust við í Katar.
Argentína byrjaði þennan leik virkilega vel og var með 2-0 forystu þegar flautað var fyrri hálfleikinn af.
Lionel Messi skoraði fyrra markið á 23. mínútu úr vítaspyrnu og bætti Angel Di Maria við öðru á 36. mínútu.
Útlitið var lengi mjög bjart fyrir Argentínu en þegar 10 mínútur voru eftir fékk Frakkland vítaspyrnu.
Kylian Mbappe steig á punktinn og lagaði stöðuna fyrir Frakka og var svo aftur á ferðinni mínútu síðar.
Mbappe tókst að jafna metin strax eftir fyrra mark sitt og tryggði Frökkum þar með framlengingu.
Í framlengingunni voru það Argentínumenn sem tóku forystuna er Messi gerði sitt annað mark á 109. mínútu.
Mbappe reyndist svo aftur hetja Frakka er tvær mínútur voru eftir en hann jafnaði þá metin á ný með öðru marki af vítapunktinum.
Mbappe vinnur gullskóinn að þessu sinni og skoraði átta mörk í keppninni en Messi gerði sjö fyrir Argentínu.
Því miður fyrir Mbappe dugði þrennan ekki til en Argentína vann að lokum í vítakeppni.