Sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson segir að KR hafi ekki átt efni á flugi fyrir karlalið sitt í Evrópuleik gegn Pogon Szczecin í sumar. Velunnarar hafi hins vegar reddað málunum.
KR og Pogon mættust í fyrstu umferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA. Pogon vann nokkuð þægilega samanlagt, 4-2.
Fyrri leikurinn fór fram í Póllandi og lauk honum með 4-1 sigri Pogon. Kristján segir KR-inga hins vegar vart hafa haft efni á að komast í þann leik.
„Það var búið að ræsa út árabátana í sumar og róa til Evrópu þegar velunnarar félagsins drógu þá að landi og borguðu Icelandair fyrir flugmiðana í Evrópuleikinn,“ segir hann í Þungavigtinni.
„Ertu að tala um að þeir hafi ekki átt efni á flugi?“ spurði þáttastjórnandinn Ríkharð Óskar Guðnason hissa.
Fjárhagsstaða KR var mikið í umræðunni í haust en ljóst er að fjármuni skortir í Vesturbæ.
Árabátarnir ræstir út síðasta vor þar sem róa átti til Evrópu. Nýjasti þátturinn mættur á https://t.co/MIoaJseT27 pic.twitter.com/U8sgHZ14tg
— Rikki G (@RikkiGje) December 15, 2022