Didier Deschamps, landsliðsþjálfari franska landsliðsins segir liðið vera að grípa til allra nauðsynlegra leiða til þess að hefta útbreiðslu flensu sem hefur verið að hrjá nokkra leikmenn liðsins. Frakkar eiga fyrir höndum úrslitaleik gegn Argentínu á HM í Katar á sunnudaginn næstkomandi.
Nú þegar hafa þrír leikmenn liðsins veikst á mótinu og er það meðal annars stafa út frá loftslaginu í Katar sem og loftkælingu, sem er meðal annars notuð á leikvöngunum sjálfum.
,,Hitastigið hefur aðeins fallið í Doha og þá er loftkælingin sífellt í gangi,“ sagði Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands á blaðamannafundi í gær eftir að liðið hafði tryggt sér sæti í úrslitaleik HM.
Þrír leikmenn hafa upplifað einhvers konar einkenni flensu hingað til.
,,Við reynum að fara varlega svo fleiri smitist ekki. Leikmenn hafa lagt mikið á sig innan vallar og þar af leiðandi verður ónæmiskerfi þeirra viðkvæmara fyrir vikið eftir slíka áreynslu.
Við grípum til allra nauðsynlegra aðgerða, við reynum að hefta útbreiðslu þessa víruss“