Sparkspekingarnir Jamie Carragher og Richard Keys tókust á í gær á samfélagsmiðlinum Twitter. Snerist rifrildi þeirra um næsta þjálfara karlalandsliðs Englands.
Gareth Soothgate er núverandi þjálfari enska liðsins en talið er að hann gæti stigið til hliðar í kjölfar þess að Englendingar féllu úr leik í 8-liða úrslitum Heimsmeistaramótsins í Katar. Undir stjórn Soutghate hefur England komist í undanúrslit HM og úrslitaleik Evrópumótsins, á heimavelli í fyrra.
Carragher sagði í gær að komi nýr landsliðsþjálfari inn vilji hann að sá sé Englendingur. Keys svaraði þessu.
„Hvaða rugl er þetta? Þetta er klár rasismi. Þjálfari Englands á að vera sá besti sem er laus hverju sinni,“ skrifaði hinn umdeildi Keys, en hann var á sínum tíma rekinn frá Sky Sports fyrir kvenfyrirlitningu.
„Ég vona að þú sendir svipuð tíst á blaðamenn sem hafa sömu skoðun, eða er þetta kannski bara því ég vinn fyrir Sky? Þú er sorglegur og örvæntingarfullur maður,“ svaraði Carragher.