Samband Cristiano Ronaldo og umboðsmanns hans, Jorge Mendes, er ekki sagt gott. Spænski fjölmiðillinn AS segir frá þessu.
Hinn 37 ára gamli Ronaldo hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Hann fór í umdeilt viðtal við Piers Morgan á dögunum þar sem hann hraunaði yfir mann og annan hjá Manchester United, þar á meðal stjórann Erik ten Hag.
Í kjölfarið var samningi hans á Old Trafford rift.
Þá missti Ronaldo byrjunarliðssæti sitt í portúgalska landsliðinu á miðju Heimsmeistaramóti í Katar. Liðið féll úr leik í 8-liða úrslitum af hendi Marokkó.
Nú leitar kappinn sér að nýju félagi. Það hjálpar hins vegar ekki að samskipti hans við Mendes eru ekki á góðu nótunum eins og er.
Al-Nassr í Sádi-Arabíu hefur hvað helst verið nefnt til sögunnar sem hugsanlegur næsti áfangastaður Ronaldo. Það er hins vegar ekkert komið á hreint í þeim efnum.