Miðjumaðurinn Azzedine Ounahi hefur heillað með landsliði Marokkó á Heimsmeistaramótinu í Katar.
Hinn 22 ára gamli Ounahi, sem er á mála hjá Angers í Frakklandi, hefur byrjað alla leiki Marokkóa á HM, þar sem liðið hefur komið á óvart.
Það er komið alla leið í undanúrslit, þar sem andstæðingurinn verður Frakkland í kvöld. Sigurvegarinn úr leiknum mætir Argentínu í úrslitaleiknum á sunnudag.
Nú segir franski miðillinn L’Equipe frá því að enska úrvalsdeildarfélagið Leicester hafi mikinn áhuga á að fá Ounahi til liðs við sig. Jafnframt sé það til í að borga um 45 milljónir evra fyrir þjónustu hans.
Ounahi er samningsbundinn Angers til 2026 og félagið því í sterkri stöðu í viðræðum við hugsanlega kaupendur.
Leikur Marokkó og Frakklands hefst klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma.