Portúgalska knattspyrnusambandið hefur áhuga á því að ráða Jose Mourinho sem landsliðsþjálfara og taka þar sem við af Fernando Santos, sem talinn er á förum.
Gazzetta dello Sport segir frá þessu en fleiri miðlar taka einnig í sama streng.
Mourinho er knattspyrnustjóri Roma á Ítalíu sem stendur. Samkvæmt fréttum ætlar portúgalska sambandið ekki að krefjast þess að hann yfirgefi það starf, heldur veita honum það tækifæri að gera bæði í einu.
Er þetta alls ekki algengt í nútíma knattspyrnu.
Á meðan óvissa er um hver tekur við er þó líklegt að Jorge Rui verði starfandi landsliðsþjálfari Portúgals.
Eins og allir vita hefur Mourinho náð frábærum árangri í félagsliðafótbolta með félögum á borð við Real Madrid, Inter, Chelsea og Manchester United.