Youssef El-Nesyri skoraði sigurmark Marokkó gegn Portúgal í 8-liða úrslitum Heimsmeistaramótsins í Katar um helgina. Liðið varð þar með það fyrsta frá Afríku til að komast í undanúrslit HM.
Markið skoraði El-Nesyri með glæsilegum skalla. Hann stökk alls upp í 2,77 metra hæð til að setja höfuðið í boltann og skora.
Gerði hann þar með gott betur en Cristiano Ronaldo í frægu skallamarki fyrir Juventus gegn Sampdoria. Þá stökk Portúgalinn í 2,56 metra hæð áður en hann skallaði boltann í netið.
Ronaldo var einmitt á bekknum í umræddum leik og kom inn á sem varamaður.
Sem fyrr segir er Marokkó komið í undanúrslit. Þar mætir liðið Frökkum annað kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19 að íslenskum tíma.