Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður hjá RÚV var gestur í Íþróttavikunni með Benna Bó, ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs og þar var farið yfir víðan völl.
Knattspyrnuþjálfaranum Brynjari Birni Gunnarssyni var sagt upp störfum sem þjálfari Örgryte í Svíþjóð í vikunni.
,,Maður heldur alltaf einhvern veginn með öllum íslenskum þjálfurum erlendis,“ voru orðin sem Benedikt Bóas opnaði umræðuna á. ,,Hann var búinn að vera svo stutt þarna.“
Hörður Snævar tók undir það.
,,Hann er svo hrikalega stutt þarna. Brynjar tekur við Örgryte þegar liðið er í fallsæti, hann bjargar þeim frá falli og þetta eru þakkirnar. Brynjar var fluttur búferlum til Svíþjóðar og sex mánuðum síðar er löngutönginni bara flaggað og honum sagt að drulla sér heim.“
Þetta sé hins vegar bara veruleiki þjálfara í knattspyrnuheiminum. Starfsöryggið sé lítið sem ekkert.
,,Hann kemur væntanlega bara aftur inn á þennan íslenska markað,“ bætti Gunnar þá við. ,,Þeir verða þá nokkrir að berjast um störfin í þessum efstu tveimur deildum hér heima. Hann fer væntanlega bara í þann flokk.“
Umræðuna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan: