Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, viðurkennir að liðið hafi haft heppnina með sér gegn Englandi í gær.
England er úr leik eftir 2-1 tap gegn Frökkum þar sem Harry Kane gerði eina mark þeirra ensku úr vítaspyrnu.
Kane fékk annað tækifæri á að skora undir lok leiks en þá klikkaði hann á vítapunktinum sem fór hátt yfir markið.
,,Við vorum að spila við magnað enskt landslið sem eru sterkir bæði líkamlega sem og tæknilega,“ sagði Deschamps.
,,Það er frábært fyrir leikmennina að komast í undanúrslitin aftur, það er á svona augnablikum þar sem þú vilt stoppa í smá stund.“
,,Við munum njóta sigursins en við vorum nokkuð heppnir þar sem við gáfum þeim tvær vítaspyrnur. Við héldum forystunni og spiluðum með hjartanu.“