Það vakti athygli í gær þegar greint var frá því að Einar Örn Jónsson myndi lýsa úrslitaleik Heimsmeistaramótsins í Katar fyrir hönd RÚV.
Það var vefmiðillinn Fótbolti.net sem greindi frá þessu.
Þetta var tekið fyrir í HM-hlaðvarpi íþróttadeildar Torgs (Fréttablaðsins og DV) í dag.
„Flestir hefðu búist við því að Gunni Birgis eða Höddi Magg hefðu fengið þennan leik. Ætli RÚV vilji nokkuð velja á milli þeirra. Þeir fá sitt hvorn undanúrslitaleikinn,“ segir Aron Guðmundsson í þættinum.
Einar Örn er goðsögn í íslenskum handbolta.
„Verktakinn verður undir á móti launamanninum. En hvar annars staðar í heiminum gæti það gerst að fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta lýsi úrslitaleiknum en þú ert með fyrrum landsliðsmann í fótbolta í vinnu hjá þér í Herði Magnússyni?“ spyr Hörður Snævar Jónsson.
Helgi Fannar Sigurðsson tók til máls. Hann hrósar Einari en telur Hörð fremstan í flokki af lýsendum RÚV á HM.
„Mér finnst Einar Örn algjör toppmaður. Ég hef ekkert á móti honum sem lýsanda og finnst hann flottur í því hlutverki. En Höddi Magg er besti lýsandinn þarna, það er ekki til að gera lítið úr Einari, hann er bara frábær lýsandi.“