Það voru margir sárir og svekktir út í RÚV í gær eftir leik Póllands og Argentínu á Heimsmeistaramótinu í Katar.
Leiknum lauk 2-0 fyrir Argentínu. Úrslitin dugðu Pólverjum hins vegar til að fara í 16-liða úrslit, þar sem Mexíkó vann Sádi-Arabíu í hinum leik riðilsins með aðeins einu marki.
Síðarnefnda leiknum lauk á eftir leik Argentínu og Póllands og þurftu pólskir leikmenn og stuðningsmenn því að bíða eftir úrslitunum þar til að fá staðfest að þeir væru komnir áfram. RÚV sýndi það hins vegar ekki.
Þetta var tekið fyrir í HM-hlaðvarpi íþróttadeildar Torgs (Fréttablaðsins og DV) í dag.
„Maður var hálf hneykslaður í gær að fylgjast með þessu. Ég var spenntur að sjá pólsku stuðningsmennina fá fréttir um að þeir væru komnir áfram,“ segir Helgi Fannar Sigurðsson.
Aron Guðmundsson gagnrýnir RÚV fyrir þetta, en fjöldi Pólverja er búsettur hér á landi.
„Þau gerðu ekki ráð fyrir að þetta gæti gerst en auðvitað áttu að gera ráð fyrir öllu mögulegu í svona móti. Þetta var blaut tuska í andlitið á okkur fótboltaunnendum og sér í lagi pólsku stuðningsmönnunum hér á Íslandi.“
Það skapaðist umræða um þetta á samfélagsmiðlum einnig. Hér að neðan má sjá brot af umræðunni.
Jesús hvað ég þoli þessa ríkisstofnun ekki. Beint í skjáauglýsingar.
— Hilmar Jökull (@HilmarJokull) November 30, 2022
Það er eins og RÚV haldi að ekkert geti gerst eftir að dómarinn flautar leikinn af. Fékk flashback! pic.twitter.com/UmlBYxPcm5
— Egill (@Agila84) November 30, 2022
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem RÚV er gagnrýnt fyrir svona lagað. Það varð allt vitlaust þegar skipt var yfir í auglýsingu frá Bakarameistaranum eftir leik íslenska karlalandsliðsins við Noreg.