Helgi Seljan, blaðamaður á Stundinni, settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó, sem sýnd er á Hringbraut á föstudögum. Þar var einnig Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs.
Það kom fram í vikunni sem leið að Einar Örn Jónsson mun lýsa úrslitaleik Heimsmeistaramótsins í Katar fyrir hönd RÚV.
Einhverjir hafa gagnrýnt valið.
„Við erum kannski alltaf að bera okkur saman við aðrar þjóðir. Eins og á Englandi eru alltaf gamlar fótboltakempur að lýsa. Það er punkturinn sem einhver gæti nefnt. Hörður Magnússon er fyrrum landsliðsmaður í fótbolta en Einar í handbolta. En við erum bara 350 þúsund manna þjóð og Einar hefur fjallað um fótbolta lengi og gert það vel,“ segir Hörður.
Hann bendir þó á að Hörður sé frábær lýsandi.
„Þjóðin hefur kannski fattað hverju hún hefur tapað. Þetta var okkar maður í íslenska boltanum og sá um alla umfjöllun.“
Helgi tók í sama streng.
„Það er svo frábært að heyra Hörð Magnússon tala um fótbolta, það er svo gaman að því. Ég tala nú ekki um ef einhver poolari slæðist inn í annað liðið.“