Það vakti athygli í leik Belgíu og Marokkó í gær að Munir var í markinu en ekki Bono, líkt og í fyrsta leik riðilsins gegn Króatíu.
Marokkó vann glæstan 2-0 sigur í gær.
„Okkar besti Bono átti að vera í markinu. Hann var í upphitun og mætti í þjóðsönginn. Svo er tekin liðsmynd og þá er bara kominn annar maður í markmannsbúninginn, enginn látinn vita,“ segir Aron Guðmundsson í HM-hlaðvarpi íþróttadeildar Torgs (Fréttablaðsins og DV) og bætir við að Bono hafi veikst.
„Það fattaði þetta enginn lýsandi. Gunnar Birgisson tók að lokum eftir þessi á RÚV. Hann var með þeim fyrstu.“
Hörður Snævar Jónsson tók til máls og hrósaði Gunnari.
„Ég verð að hrósa Gunnari Birgissyni. Hann er að taka það sem sumir kalla Auðunn Blöndal-trixið. Jói Ásbjörns fattaði auðvitað fyrstur upp á þessu. Þegar þú ert alveg að fá skalla þá ferðu í strípurnar,“ segir hann léttur.
„Ég verð að hrósa Gunnari fyrir að lesa salinn þarna. Það hefði ekki verið gott að sjá hann með skallablettina í beinni á RÚV.“