Cristiano Ronaldo er æ meira orðaður við Sádi-Arabíu, nánar til tekið Al-Nassr þar í landi.
Samningi hins 37 ára gamla Ronaldo við Manchester United var rift á dögunum. Hann hafði farið í umdeilt viðtal við Piers Morgan, eins og flestir kannast við. Eftir það var nokkuð ljóst að engin endurkomuleið væri fyrir hann á Old Trafford.
Nú segir Daily Mirror frá því að Al-Nassr hafi boðið honum svakalegan samning. Það einfaldar auðvitað málið að Ronaldo er nú laus allra mála á Englandi.
Samkvæmt blaðinu er tilboðið ekki allt of fjarri því sem Ronaldo barst frá öðru sádi-arabísku liði í sumar. Þá var honum boðinn samningur sem í heildina hefði gefið honum yfir 300 milljónir punda.
Nú einbeitir Ronaldo sér að portúgalska landsliðinu. Liðið hefur leik á Heimsmeistaramótinu í Katar seinna í dag. Þar mætir Portúgal liði Gana klukkan 16 að íslenskum tíma.