Chelsea er heldur betur farið að undirbúa hugsanlega brottför N’Golo Kante næsta sumar og er farið að skipuleggja kaup á tveimur afar sterkum miðjumönnum.
Samningur hins 31 árs gamla Kante við félagið rennur út næsta sumar og hefur hann verið orðaður frá félaginu.
Samkvæmt Daily Mail er Chelsea að undirbúa tilboð í bæði Declan Rice hjá West Ham og Jude Bellingham hjá Borussia Dortmund.
Báðir eru staddir með enska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í Katar. Þeir spiluðu í 6-2 sigri á Íran í riðlakeppninni á dögunum.
Bellingham er nítján ára gamall og einn eftirsóttasti leikmaður heims um þessar mundir. Talið er að hann muni kosta um 130 milljónir punda hið minnsta.
Rice verður 24 ára gamall í byrjun næsta árs og á því nóg eftir einnig.
Hann verður þó engan veginn ódýr heldur. Talið er að hann muni kosta um 100 milljónir punda.