Fabrizio Romano, hinn afar virti ítalski blaðamaður, segir stemninguna í leikmannahópi argentíska landsliðsins enn góða þrátt fyrir tapið gegn Sádi-Arabíu í gær.
Argentína tapaði afar óvænt fyrir Sádum í fyrsta leik sínum á Heimsmeistaramótinu í Katar í gær.
Lionel Messi og félagar hafa verið taldir með sigurstranglegustu liðum mótsins og úrslitin komu mörgum í opna skjöldu.
„Ég held að Argentína hafi alla burði til að koma sterkari til baka og breyta stöðunni. Þeir eru með frábæran hóp og sambandið á milli leikmanna í búningsklefanum er mjög gott. Þeir geta gert góða hluti með Messi sem leiðtoga hópsins,“ segir Romano.
Romano viðurkennir að úrslitin hafi komið sér mikið á óvart. Hann hefur þó enn trú á Argentínumönnum.
„Þetta er ekki byrjunin sem þeir vildu en það er ekki hægt að afskrifa þá. Ég vona að við sjáum Messi upp á sitt besta fljótlega.“