Arnar Gunnlaugsson sérfræðingur Rúv og þjálfari Víkings var í sjokki eftir leik Þýskalands og Japan á HM í Katar. Þýskaland voru mikið mun sterkari aðili leiksins framan af leik en Ilkay Gundogan kom liðinu yfir. Markið skoraði Gundogan úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik.
Þýskaland fékk urmul færa til að klára leikinn en voru ekki í markaskónum. Það nýttu Japanar sér.
Ritsu Doan jafnaði leikinn á 75 mínútu og átta mínútum síðar var það Takuma Asano sem kom Japan yfir. Bæði Doan og Asano komu inn sem varamenn í leiknum.
„Japanir höfðu heppnina með sér, Þjóðverjar voru að bíða eftir öðru markinu. Þegar fyrsta mark Japans kom þá kom trú á verkefnið, maður er í sjokki eftir að hafa fylgst með seinni hálfleik,“ sagði Arnar á RÚV.
„Þjóðverjar höfðu yfirburði í fyrri hálfleik og spiluðu frábærlega. En höldum okkur við það að hrósa Japan.“
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir tók í svipaðan streng. „Í fyrri hálfleik voru Þjóðverjar með öll völd á vellinum, mikið flæði í sóknarleiknum,“ sagði Ásgerður.
„Þjóðverjar brugðust illa við því sem JApan var að gera vel, þeir vakna svo upp við vondan draum og eru í panicki síðustu tíu mínúturnar,“ sagði Arnar.