Það kom upp umdeilt atvik í leik Englands og Íran á Heimsmeistaramótinu í Katar í gær. Þá vildu Englendingar fá víti snemma leiks.
England vann leikinn 6-2 og spilaði frábærlega. Það kom því ekki að sök þegar Harry Maguire fékk ekkert fyrir sinn snúð þegar brotið virtist á honum innan teigs Írans í leik liðanna í B-riðli í gær.
„Hvernig var þetta ekki víti? Maguire var dreginn niður í teignum,“ segir Hörður Snævar Jónsson í HM-hlaðvarpi íþróttadeilar Torgs (Fréttablaðsins og DV) í dag.
Íran fengu víti seint í leiknum fyrir brot sem virtist ekki alvarlega en þegar Maguire var dreginn niður í byrjun leiks.
„Þetta er bara galið. Ég er ekkert ósammála því að þetta hafi verið víti á Englendinga í lokin, en ef það er línan átti þetta svo gjörsamlega að vera víti í byrjun,“ segir Helgi Fannar Sigurðsson.
Hann bendir á að Argentína hafi fengið víti fyrir svipað atvik og þegar brotið var á Maguire í leik sínum gegn Sádi-Arabíu í dag.
„Enn og aftur er línan hjá dómurum og VAR aðeins að pirra mann.“