Sádi-Arabía gerði ansi gott mót á Heimsmeistaramótinu í Katar í dag, þegar liðið sigraði Argentínu 2-1.
Argentínumenn leiddu í hálfleik, 1-0, með marki frá Lionel Messi af vítapunktinum.
Sádi-Arabía kom hins vegar með látum inn í seinni hálfleik. Á 48. mínútu jafnaði Saleh Al-Shehri fyrir þá og fimm mínútum síðar voru þeir komnir yfir með frábæru marki Salem Al-Dawsari.
Athygli vekur að sjö leikmenn sem voru í byrjunarliði Sáda í dag voru það einnig í vináttulandsleik gegn Íslandi á dögunum.
Það eru þeir Mohammed Al Owais, Saud Abdulhamid, Salman Al Faraj, Abdulelah Al Maki, Mohamed Kanno, Firas Al Buraikan og Salem Al Dawsari.
Ísland stillti upp algjöru varaliði í leiknum sem var að mestu skipað leikmönnum úr Bestu deildinni hér á landi. Aðeins Aron Einar Gunnarsson byrjaði leikinn af leikmönnum sem telja mætti sem lykilmann í íslenska landsliðinu.
Þeim leik lauk með 1-0 sigri Sádi-Arabíu, þar sem Abdulhamid gerði einmitt markið.
Í þessum riðli eru einnig Pólland og Mexíkó, sem mætast klukkan 16 að íslenskum tíma.