Þetta kom í ljós í gær þegar bandarískum blaðamanni var meinaður aðgangur að leik Bandaríkjanna og Wales á HM í Katar. Ástæðan var að hann var í stuttermabol með regnbogamerki, sem er merki hinsegin fólks.
Áður hafði mikil umræða verið um OneLove fyrirliðabönd nokkurra liða á mótinu en þau ákváðu í gær að nota það ekki því FIFA hótaði að beita þau refsingu ef það yrði gert.
Belgíska landsliðið neyddist til að skipta um útivallabúning því orðið „Love“ stendur á kraga búningsins sem fyrirhugað var að nota.
Daninn Christoffer Pederstrup mætti gallvaskur á leik Bandaríkjanna og Wales í gær og átti ekki von á öðru en hann gæti fylgst með leiknum.
Íklæddur sokkum í regnbogalitum og OneLove-armbindi reyndi hann að komast í gengum miðaeftirlitið við leikvanginn. En það gekk ekki.
„Ég var stoppaður eftir að ég var kominn í gegnum öryggisleitina. Þá horfði vörðurinn á mig og sagði að ég yrði að fara út og setja sokkana mína og armbindi í geymslu. Ég spurði: „Af hverju?“ Hann svaraði hann með því að endurtaka margoft: „Þú verður að setja þá í geymslu.“ Það var augljóst að þetta var ekki til umræðu,“ sagði Pederstrup í samtali við TV2 SPORT.
Hann sagðist ósáttur við að hafa ekki fengið að fara inn með armbindið og regnbogasokkana en vörðurinn hafi verið kurteis í samskiptum.
Pederstrup var fylgt að geymslu af öðrum verði þar sem hann tók upp myndband þar sem hann útskýrði stöðu mála.
Dane trying to enter stadium to watch #USAvWAL denied entering with #onelovearmband and rainbow colored socks. @FIFAcom @FIFAWorldCup pic.twitter.com/NrUBh3Rjpr
— Rasmus Tantholdt TV2 (@RasmusTantholdt) November 21, 2022
Hann vildi ekki taka áhættuna á að sokkarnir og bindið myndu hverfa úr geymslunni á meðan hann væri að horfa á leikinn svo hann tók ákveðna áhættu.
„Ég braut sokkana niður fyrir ökkla, þannig að þeir sáust ekki. Ég setti bindið í vasann og síðan gekk ég inn um annan inngang og komst inn,“ sagði hann.
Hann sagðist hafa íhugað að bretta sokkana upp aftur þegar inn var komið en hafi ekki þorað að taka meiri áhættu.