Louis van Gaal, landsliðsþjálfari Hollands, segir að hann hafi haft mikinn áhuga á að fá Sadio Mane til liðs við sig er hann var stjóri Manchester United.
Það var árið 2016, þegar Mane var leikmaður Southampton, sem United vildi fá leikmanninn. Senegalinn fór að lokum til Liverpool, þar sem hann átti eftir að standa sig frábærlega áður en hann gekk til liðs við Bayern Munchen í sumar.
„Mig langaði að fá hann þegar ég var knattspyrnustjóri United. Ég eltist við hann,“ segir Van Gaal.
Staðfestir þetta ummæli Mane frá því í vor, en hann sagðist hafa verið hársbreidd frá því að fara til United.
Holland mætir einmitt Senegal í fyrsta leik liðanna á Heimsmeistaramótinu í Katar í dag. Þar verður Mane ekki með vegna meiðsla, en hann missir af HM alfarið vegna þeirra.
„Ég er mikill aðdáandi Mane. Hann getur brotið upp leiki. Ég held að Senegal muni sakna hans mikið.“