Conor Gallagher, leikmaður Chelsea, viðurkennir að hann hafi verið hissa er hann var valinn í landsliðshóp Englands fyrir HM.
Gallagher var frábær fyrir lið Crystal Palace á síðustu leiktíð en hann lék þar í láni frá Chelsea.
Miðjumaðurinn fékk tækifæri með aðalliði Chelsea á þessu tímabili en hefur ekki náð að festa sig í sessi.
Þrátt fyrir það var Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, ákveðinn í að velja þennan 22 ára gamla leikmann í lokahópinn fyrir HM.
,,Ef ég á að vera hreinskilinn þá bjóst ég ekki við þessu. Augljóslega þá var þetta möguleiki en ég var hissa,“ sagði Gallagher.
,,Ég hef ekki spilað stöðugan fótbolta með Chelsea og Chelsea hefur ekki átt gott tímabil. Við þurfum svo sannarlega að bæta okkur og ég er viss um að við gerum það.“