Heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefst síðar í dag með opnunarleik gestgjafanna í Katar gegn Ekvador. Gagnrýnin á mótið hefur verið mikil ekki síst vegna spillingarmála og mannréttindabrota. Afleiðingin er sú að stemmingin fyrir mótinu er lítil og margir fótboltaáhugamenn munu aðeins fylgjast með mótinu með öðru auganu.
Jónas Grani Garðarsson þekkir Katar vel en hann hefur verið búsettur ytra frá árinu 2016 og starfar sem sjúkraþjálfari á Aspetar-sjúkrahúsinu höfuðborginni Katar.
Honum er greinilega nóg boðið af fréttaflutningi hérlendis í aðdraganda mótsins og skrifaði því pistil á Facebook-síðu sína í morgun þar sem hann bregður upp öðrum vinkli á málið. Jónas Grani segist ekki efast um að margt hafi mátt betur fara í aðdraganda mótsins en hann segir Katarbúa vera að bæta ráð sitt og einhvern tímann hefði það þótt góðra gjalda vert.
Málamiðlararnir við Persaflóa
„Qatar er reyndar friðsamasta ríkið við Persaflóa og hafa alla tíð veri í hlutverki þess sem vill miðla málum og sjaldan tekið mjög einarða afstöðu gegn einu eða neinu. Yfirleitt til í að ræða málin. Það verður svo sannarlega ekki sagt um alla hina. Jafnvel þó víðar væri leitað.
Varðandi verkamenn í Qatar og mannréttindabrot sem er nú algengasta umræðuefnið þá hefur alþjóða vinnumálastofnunin (ILO), sem við Íslendingar erum hluti af, sagt að eins og staðan er núna þá verði Qatar fyrirmynd um það hvernig eigi að standa að hlutum (e. Benchmark) við uppbyggingu fyrir stórmót. Það hafa nefnilega átt sér stórkostlegar breytingar í þessum málum síðan 2018 en þá opnaði ILO skrifstofu hér í Qatar. Fyrsta kvörtun varðandi aðbúnað verkamanna barst til þeirra árið 2013 þannig að þetta tók talsverðan tíma,“ skrifar Jónas Grani.
Rýna þarf betur í tölur um dauðsföll
Ein mesta gagnrýnin hefur verið á aðstæður verkamanna í Katar í aðdraganda mótsins. Breski miðillinn Guardian benti á að 6.500 verkamenn hefðu dáið í aðdraganda mótsins og vakti sú staðreynd mikla hneykslan. Jónas Grani segir að rýna verði betur í málið.
„Sjaldnast er minnst á það að tölurnar eiga við 10 ára tímabil og enn síður að þær séu um alla sem voru frá þeim löndum sem hringt var í. Það var nefnilega bara hringt til nokkurra landa í Suð-austur Asíu og fengnar dánartölur ríkisborgara þeirra í Katar. Þetta gera cirka 650 dauðsföll á ári. Samkvæmt nýlegum tölum eru rúmlega 2 milljónir verkamanna í Qatar. Út frá því væri hægt að segja að dauðsföll væru uþb 0,03% verkamanna – en það væri líklega álíka ónákvæmt og hin margfræga 6500. En sú fræga tala á við um alla, konur og kalla, krakka með hár og kalla með skalla – ásamt öllum hinum. Öllum. Ekki bara þeim sem vinna við vellina fyrir HM. ILO gerði rannsókn á slysum meðal verkamanna í Katar og skv þeim tölum voru 50 dauðsföll rakin til vinnuslysa, þar af 25% þeirra í umferðinni. Eitt slys, í júlí, kostaði ellefu manns lífið,“ skrifar Jónas Grani.
Hann segir aðstæður verkamanna í Katar þær bestu í Persaflóaríkinu. Bannað sé að vinna frá 10-15.30 þegar hitinn er of mikill og vinnu sé hætt þegar hitinn fer yfir 32 gráður.
Hinsvegar sé staðan ú að þar sem tvær milljónir farandverkamanna starfi þá komi því miður upp mál þar sem að aðstæður þeirra séu ekki boðlegar og það gildi ekki bara um Katar. Hvert skítamál sé þó einu skítamáli of mikið og segist Jónas Grani ekki ætla að verja það.
HM hefur bætt aðstæður verkamanna
„Eitt af vandamálunum við verkamenn, og reyndar alla sem koma til að vinna á Persaflóasvæðinu, er Kafalakerfið. En samkvæmt því gátu vinnuveitendur haldið vegabréfum starfsmanna hjá sér og verkamenn gátu ekki breytt um vinnu án leyfis frá vinnuveitenda. Auk þess þurftu þeir leyfi (exit permit) til að fara úr landi. Það átti til dæmis við um okkur starfsmenn Aspetar þannig að við þurftum alltaf að sækja um fararleyfi áður en við ferðuðumst frá Katar. Þetta hefur allt verið afnumið og breytt,“ skrifar Jónas Grani. Að hans mati er augljóst að HM-verkefni hafi bætt aðstæður verkamanna í Katar.
„Eftir komu ILO til Qatar hefur því einnig verið komið á að greiða skal lágmarkslaun og á réttum tíma. Grunar mig að þær fréttir sem fjalla um hlunnfarna menn séu frá fyrri tíð en um það ætla ég ekki að fullyrða. Qatar hefur einnig ráðstafað 320 milljónum bandaríkjadala til vangoldinna launa. Þeir sem eru enn í landinu geta því kroppað úr þeim sjóði en þeir sem eru farnir fá líklega ekki neitt,“ skrifar hann.
Gefa þar umræðunni um samkynhneigð tíma
Hávær umræða hefur verið um réttindaleysi samkynhneigðra í Katar en að mati Jónasar þarf að gefa þeirri umræðu tíma. Dropinn holi steininn.
„Samkynhneigð er bönnuð með lögum í Qatar, eins og í 7-8 öðrum þáttökuþjóðum á HM. Ef jafnt skildi yfir alla ganga þá ættum við líklega að henda þessum löndum út og banna að keppnin fari fram í þessum löndum. Þetta er erfitt mál og snúið, þó að okkur finnist þetta einfalt og lítið mál. Qatar er, eins og flestir vita, múslimaríki og samkvæmt þeirri trú er samkynhneigð bönnuð og erfiðustu samræðurnar eru einmitt um það mál. Ég held að við þurfum að gefa þessum þjóðum smá tíma, við getum ekki ætlast til að áratuga baráttu í hinum vestræna heimi að afleiðingum/árangri hennar verði bara komið á með einum smelli hjá þessum þjóðum. Það virkar bara ekki þannig. Saga Katar, sem ríkis nær aðeins aftur til 1971 og hér var bókstaflega ekkert árið 1980. Internetið er til þess að gera nýkomið og allar upplýsingarnar sem því fylgja. En við getum alveg rætt þetta og minnt þá á þetta,“ skrifar Jónas Grani.
Hann segir þó að allt sé morandi í hommum í Katar og að að hann telji að þeir hafi það bara fínt í landinu og fái að vera í firði svo lengi sem málinu séu ekki rædd á torgum og reynt að breyta lögunum á þeirri stundu.
Afstaðan til kynferðisbrota hræðileg og óverjandi
Jónas Grani segist vilja taka það skýrt fram að hann styðji ekki mannréttindabrot né illa meðferð á fólki, langt því frá, en honum finnst að heimamenn eigi meira skilið fyrir viðleitni þeirra til að bæta ástandið, varðandi það hafa þeir verið samstarfsfúsir.
„Það er að auki í þeirra anda, þeir eru nefnilega framsýnir og metnaðarfullir, og heilt yfir mjög gott fólk, hvort sem þið trúið því eða ekki.“
Jónas Grani segir að það sem sé þó sannarlega er skelfilegt og ekki breytt eða unnið í að nokkru leyti, svo hann viti , séu kynferðisbrot.
„Það er bannað með Sharialögum að halda framhjá sem eitt og sér væri alveg í lagi en ef konu er nauðgað af einhverjum öðrum en hennar eigin manni þá yrði henni refsað fyrir kynlíf utan hjónabands en ofbeldismaðurinn myndi sleppa. Það er algjörlega galið og eitthvað sem Katarbúa þurfa og ættu að lagfæra sem allra fyrst. Skilst að hvernig þeir framfylgja lögunum sé meira vandamál en lögin sjálf. Trúin og trúarbrögðin er hér, eins og svo oft áður, að þvælast fyrir og ekki í takt við nútímann,“ skrifar hann.
Jónas Gransi segist benda á þessi atriði til að sýna að það er margt sem þarf að laga og bæta, margt sem er galið og yfirleitt tengist það trúnni. Það taki tíma að vinda ofan af því.
„Það breytir ekki því þó að mér finnst að þeir eigi að fá hrós fyrir það sem þeir hafa nú þegar breytt og eru að vinna í að breyta og laga,“ skrifar hann.
Hér má lesa færslu Jónasar Grana í heild sinni: