Enskir landsliðsmenn voru mun kærulausari fyrir um 20 árum síðan en þeir eru í dag sem og fótboltamenn víðsvegar um heiminn.
Þetta segir David James, fyrrum leikmaður Englands og Liverpool, en hann lék einnig með ÍBV hér heima. James er góður vinur Hermanns Hreiðarssonar en þeir léku um tíma saman með Portsmouth.
James viðurkennir að það hafi verið venja leikmanna Englands að kíkja út á lífið fyrir æfingar og voru þeir þar til klukkan tvö eða þrjú um nótt.
Ekki nóg með það þá reykti markmaðurinn um 20 sígarettur á dag sem hjálpaði þoli hans nákvæmlega ekki neitt.
,,Peter Taylor var sá sem sá um að hita mig upp. Þetta var nokkuð skrítið, hann sagði að við ætluðum að hita upp en þetta var mikil vinna,“ sagði James.
,,Ég hugsaði með mér að ég væri dauðþreyttur. Það að ég reykti 20 sígarettur á dag hjálpaði mér ekki.“
,,Hlutirnir hafa breyst. Við hittumst reglulega á bar í Burnham. Við sættum okkur við góða vinnu yfir daginn og að það væri æfing daginn eftir.“
,,Þú varst samt á barnum þar til klukkan tvö eða þrjú um nóttina, það var eðlilegt. Ég get ekki ímyndað mér að það sé raunin í dag.“