Kyle Walker, leikmaður Englands, verður að öllum líkindum ekki klár fyrir fyrsta leik liðsins gegn Íran á HM.
Walker staðfestir þetta sjálfur en hann verður líklega hægri bakvörður númer eitt hjá Englandi á mótinu.
Þessi 32 ára gamli leikmaður þurfti að fara í aðgerð á dögunum en hún var smávægileg og var um nárameiðsli að ræða.
,,Ég hafði aldrei áhyggjur. Ég þurfti alltaf að trúa á sjálfan mig. Um leið og mér var sagt að ég þyrfti að fara í aðgerð var ég fullur sjálfstrausts,“ sagði Walker.
,,Þetta snerist bara um að ég myndi undirbúa mig nógu vel bæði innan vallar sem utan, þá yrði ég í lagi.“
Walker er einn reynslumesti leikmaður Englands og ætti að ná leikjum liðsins eftir þann fyrsta í riðlinum.