Hugo Lloris segist ekki ætla ætla bera fyrirliðaband í regnbogalitum á Heimsmeistaramótinu í Katar.
Lloris er fyrirliði heimsmeistara Frakka.
Fyrirliðar einhverra landsliða, þar á meðal Harry Kane hjá Englandi, ætla að bera fyrirliðaband í regnbogalitum til að sýna hinsegin samfélaginu stuðning. Réttindi þeirra eru fótum troðin í Katar.
Lloris segir málið hins vegar ekki svona einfalt.
„Þegar við erum í Frakklandi og bjóðum útlendinga velkomna til landsins viljum við oft að þeir fylgi okkar reglum og virði menningu okkar. Ég mun gera það sama þegar ég verð í Katar, svo einfalt er það,“ segir markvörðurinn.
HM í Katar hefst á sunnudag. Það er leikið að vetri til í fyrsta sinn þar sem of mikill hiti er í Katar á sumrin til að spila þá.