Joan Laporta, forseti Barcelona, var spurður út í Lionel Messi í nýju viðtali.
Samningur hins 35 ára gamla Lionel Messi við Paris Saint-Germain rennur út næsta sumar. Óvíst er hvað framtíð hans ber í skauti sér.
Argentínumaðurinn yfirgaf Barcelona fyrir PSG sumarið 2021. Var það vegna þess að Börsungar höfðu ekki efni á að gefa honum nýjan samning. Messi hafði leikið með Barcelona allan sinn meistaraflokksferil.
„Það eru alltaf börn að spyrja mig um að fá Messi aftur hingað. Mitt svar er alltaf: Við munum sjá til,“ segir Laporta.
Messi var stórkostlegur fyrir Barcelona en Laporta virðir það að nú sé hann annars staðar.
„Messi er leikmaður Paris Saint-Germain. Ég vil ekki fara út í þetta núna.“