Joshua Kimmich, leikmaður Bayern Munchen, var algjörlega miður sín eftir frammistöðu Þýskalands á HM í Rússlandi árið 2018.
Þýskaland stóðst ekki væntingar í þessu móti og var í neðsta sæti riðlakeppninnar og fór snemma heim. Liðið lék þar ásamt Mexíkó, Svíþjóð og Suður-Kóreu.
Nú styttist i að Þýskaland spili aftur á HM en mótið í Katar fer senn að hefjast og ætlar liðið sér svo sannarlega að gera betur.
,,Mér hefur aldrei liðið eins illa í fótboltanum. Líkamlega var ég í lagi en andlega, það tók mig margar vikur að jafna mig,“ sagði Kimmich.
,,Ég man enn eftir búningsklefanum eftir 2-0 tap gegn Suður-Kóreu. Það var algjör þögn. Enginn sagði neitt.“
,,Ég hugsaði bara um hvernig ég væri að bregðast stuðningsmönnunum, fjölskyldunni og landinu. Ég man eftir að landsliðsþjálfarinn var að tala en ég hlustaði í raun ekki á það sem hann sagði. Ég var eins og uppvakingur.“