Viðtalið sem Cristiano Ronaldo veitti Piers Morgan hefur vakið heimsathygli. Þar fer Portúgalinn ófögrum orðum um Erik ten Hag og fleiri hjá Manchester United.
Í viðtalinu lýsir Ronaldo einnig yfir vonbrigðum með æðstu menn hjá United þar sem honum var ekki trúað þegar hann sagðist ekki getað farið með í æfingaferð Rauðu djöflanna í sumar af persónulegum ástæðum.
Ronaldo hafði á þessum tíma reynt að komast frá United. Ástæðan fyrir því að hann fór ekki í ferðina var hins vegar sú að þriggja mánaða dóttir hans hafði verið flutt á spítala.
Sóknarmaðurinn 37 ára gamli segir að félagið hafi ekki sýnt honum skilning á „erfiðasta kafla lífs hans.“ Það var hann vonsvikinn með.
„Fjölskyldan er mér allt, sérstaklega eftir allt sem við höfum gengið í gegnum í ár,“ segir Ronaldo, en sonur hans lést í fæðingu í vor.