Jadon Sancho gæti endað uppi sem verstu kaup í sögu Manchester United að sögn Paul Parker, fyrrum leikmanns félagsins.
Sancho hefur ekki staðist væntingar á Old Trafford hingað til en hann kostaði 73 milljónir punda árið 2021.
Parker er ekki hrifinn af leikstíl Sancho sem var ekki valinn í lokahóp Englands fyrir HM í Katar.
Sancho var áður á mála hjá Borussia Dortmund og var ein af stjörnum þýsku Bundesligunnar.
,,Ef ég á að vera hreinskilinn þá skildi ég aldrei af hverju Man Utd borgaði svo mikið fyrir Jadon Sancho,“ sagði Parker.
,,Hann er með marga veikleika því hann er aldrei að ráðast á bakverðina, hann sendir boltann til baka og það er ekki að valda neinum andstæðingi vandræðum.“
,,Hvernig þú spilar í Þýskalandi er öðruvísi en þú gerir í ensku úrvalsdeildinni og það er útlit fyrir það að hann nái aldrei að aðlagast til að vera mikilvægur fyrir Man Utd.“
,,Ef þú horfir á upphæðina sem borgað var fyrir hann þá er líklegt að hann verði verstu kaup í sögu Manchester United.“