Gerard Pique, goðsögn Barcelona, er óvænt sammála Florentino Perez sem er forseti erkifjenda Börsunga í Real Madrid.
Perez vakti athygli á því á síðasta ári að fótboltaleikur væri of langur og að hver viðureign ætti að vera styttri en 90 mínútur.
Pique lagði skóna á hilluna á dögunum en hann er sammála Perez þegar kemur að því að leikirnir séu of langir.
Perez kallaði lengi eftir því að svokölluð Ofurdeild myndi taka við í Evrópu en Pique var ekki sammála þeim punkti og vill halda í Meistaradeildina.
,,Ég er sammála honum að við þurfum að ná til yngri áhorfenda, jafnvel þó að ég sé ekki hrifinn af ‘Ofurdeildinni,’ sagði Pique.
,,Við þurfum að vera með meira heillandi markaðsvöru. Að mínu mati þá eru 90 mínútur mjög langur tími.“