Leeds United er í leit að framherja og gæti horft vestur um haf í þeirri leit sinni.
Félagið er talið hafa áhuga á Sebastian Driussi, sem raðaði inn mörkum fyrir Austin FC í MLS-deildinni á nýafstöðnu tímabili. Þetta kemur fram í fjölmiðlum í Bandaríkjunum.
Hinn 26 ára gamli Driussi gerði sér lítið fyrir og skoraði 25 mörk í 38 leikjum með Austin á leiktíðinni.
Jesse Marsch, stjóri Leeds, vill bæta við sig sóknarmanni til að keppa við menn á borð við Rodrigo og Patrick Bamford.
Leeds er þó ekki eina félagið sem hefur áhuga á Driussi, sem hefur heillað með markaskorun sinni. Tvö önnur félög í ensku úrvalsdeildinni eru sögð hafa áhuga á kappanum.
Marsch er bandarískur, sem gæti gefið Leeds forskot í kapphlaupinu.