Lionel Messi, leikmaður Paris Saint-Germain, sterklega orðaður við bandaríska félagið Inter Miami þessa dagana.
Messi spilar reglulega fyrir PSG í Frakklandi en hann er orðinn 35 ára gamall og gæti hugsað sér til hreyfings á næsta ári.
Chris Henderson, stjórnarformaður Inter Miami, var spurður út í Messi en hann vildi ekki fara út í nein smáatriði.
Inter Miami er í eigu David Beckham, fyrrum leikmanns Manchester United, og ku hann hafa mikinn áhuga á að klófesta Messi.
,,Ég vissi að þetta umræðuefni myndi koma upp,“ sagði Henderson í samtali við blaðamenn.
,,Það er alltaf frábært að við séum orðaðir við magnaða leikmenn en ég vil ekki tjá mig um neinn sem er ekki í okkar röðum.“