Það er eftir miklu að slægjast að fá að fara með liðinu á HM. Það er að sjálfsögðu mikill heiður og væntanlega toppurinn á ferli margra að spila á HM en það eru líka háar fjárhæðir í boði fyrir þátttökuna.
Í fréttatilkynningu frá samtökum leikmanna kemur fram að hver leikmaður fái sem svarar til um 100 milljóna íslenskra króna í sinn hlut ef liðið sigrar á mótinu.
Það er kannski ekki raunhæft að Danir vinni mótið en það þýðir ekki að leikmennirnir fari slippir og snauðir heim að móti loknu. Fyrir það eitt að vera valdir í liðið fær hver leikmaður sem svarar til um 17,5 milljóna íslenskra króna.
Ef liðið kemst í sextán liða úrslitin hækkar upphæðin í 27,5 milljónir. Átta liða úrslit gefa 36,7 milljónir og undanúrslit 56,8 milljónir.
Ef liðið verður í þriðja sæti á mótinu fær hver leikmaður 62 milljónir og ef liðið verður í öðru sæti tikka 66,5 milljónir inn á bankareikninga leikmannanna.