Sepp Blatter, afar umdeildur fyrrum forseti FIFA, viðurkennir að það hafi verið mistök að leyfa Katar að halda Heimsmeistaramótið á þessu ári.
Blatter var við völd árið 2010 þegar ákveðið var að Katar fengi að halda mótið. Hann var alls við stjórnvölinn hjá FIFA í sautján ár og er talið að mikil spilling hafi átt sér stað innan sambandsins á þeim tíma.
„Á þessum tíma ákváðum við að Rússland fengi HM 2018 og Bandaríkin 2022. Það hefði verið merki um frið ef þessir andstæðingar til langs tíma héldu mótið hvert á eftir öðru,“ segir Blatter.
Ástæðan fyrir því að Blatter telur það hafa verið mistök að leyfa Katar að halda HM er þó ekki sú að talið sé að 6500 farandverkamenn hafa dáið við að byggja vellina sem hýsa mótið eða sú staðreynd að samkynhneigð er bönnuð í landinu.
„Þetta er of lítið land. Fótbolti og HM eru of stór fyrir það,“ segir Blatter.
HM í Katar hefst eftir tólf daga, þann 20. nóvember. Því lýkur svo með sjálfum úrslitaleiknum þann 18. desember.