Varnarmaðurinn umdeildi Kurt Zouma hefur loksins tjáð sig opinberlega um atvik sem átti sér stað á síðasta ári.
Myndband af Zouma níðast á eigin gæludýri birtist þá á netið en hann hefur sjálfur viðurkennt brot sitt gegn varnarlausum ketti.
Zouma hefur fengið mikið skítkast vegna hegðun sinnar og er reglulega sungið um atvikið í leikjum West Ham í ensku úrvalsdeildinni.
Frakkinn segist sjá verulega eftir hegðun sinni og veit vel að hann fór yfir strikið.
,,Augljóslega þá gerði ég eitthvað mjög slæmt og ég biðst afsökunar á því sem átti sér stað,“ sagði Zouma.
,,Ég veit að það var erfitt fyrir fólk að horfa á þetta og augljóslega þykir mér verulega fyrir þessu.“
,,Ég sé rosalega eftir þessu og nú er ég að reyna að horfa fram veginn með fjölskyldunni og ég hef lært mína lexíu, það er það mikilvægasta að mínu mati.“