Stefán Árni Pálsson íþróttafréttamaður á Stöð2 Sport og blaðamaður á Vísi var gestur í íþróttavikunni hjá Benna Bó á Hringbraut á föstudagskvöld. Með honum var Hörður Snævar Jónsson fréttastjóri íþrótta hjá miðlum Torgs.
Rætt var um frétt sem birtist í vikunni þar sem Margrét Lára Viðarsdóttir var gestur í hlaðvarpinu, Chess after Dark.
Haustið 2007 var Margrét Lára Viðarsdóttir, þá leikmaður Vals, ekki valin besti leikmaður Íslandsmótsins af leikmönnum efstu deildar kvenna sem voru sagðir hafa óþol á henni. Leikmennirnir eru sagðir hafa hópað sig saman og staðið að því að Margrét yrði ekki kosin leikmaður ársins.
Á þessu umrædda tímabili sló Margrét Lára markametið í efstu deild er hún skoraði 38 mörk í 16 leikjum. Á endanum fór svo að Hólmfríður Magnúsdóttir var valin besti leikmaður tímabilsins af leikmönnum deildarinnar.
„Sagan hefur alltaf verið þannig að það hafi verið samsæri gegn henni,“ sagði Benni Bó.
Hörður Snævar tók þá til máls. „Það voru leikmenn í liðum fyrir utan Val sem hópuðu sig saman og ákváðu að kjósa ekki Margréti. Þetta var bara ákveðið, hún fór í taugarnar á þeim. Aðallega fyrir það sem hún gerði innan vallar. Þetta er öfundsýki“ sagði Hörður.
„Margrét svaraði þessu rosalega vel,“ sagði Stefán.
Það sem skýtur skökku við í málinu er sú staðreynd að sama ár var Margrét Lára valin íþróttamaður ársins í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna.
Umræðan um þetta er hér að neðan.