Í þættinum The Overlap hjá Gary Neville var Virgil van Dijk, leikmaður Liverpool, beðinn um að nefna þann leikmann sem hann væri mest til í að fá til Liverpool.
Þar valdi hollenski miðvörðurinn Kevin De Bruyne, miðjumann Manchester City. Liverpool og City hafa háð baráttu um Englandsmeistaratitilinn undanfarin ár.
„Hann er ótrúlegur,“ segir Van Dijk um De Bruyne.
„Ef hann hefði verið hjá Liverpool hefðum við náð enn lengra en við höfum gert,“ segir Van Dijk enn fremur, en hann hefur orðið Englands- og Evrópumeistari með Liverpool.
„Mér finnst hann óaðfinnanlegur leikmaður. Hann er góður á boltanum, í pressu og hann skorar. Hann hefur allt sem nútíma miðjumaður, og fótboltamaður yfirhöfuð þarf.“