Khvicha Kvaratskhelia hefur verið frábær fyrir Napoli á þessari leiktíð. Þrátt fyrir að hafa aðeins gengið í raðir ítalska félagsins í sumar er hann þegar orðaður við risana í Evrópu.
Hinn 21 árs gamli Kvaratskhelia gekk í raðir Napoli frá Dinamo Batumi í heimalandi sínu, Georgíu, í sumar. Napoli borgaði aðeins um tíu milljónir evra fyrir hann.
Kvaratskhelia getur leikið á köntunum og fyrir aftan framherja. Á þessari leiktíð hefur hann skorað átta mörk og lagt upp tíu í sautján leikjum.
Kappinn á stóran þátt í góðu gengi Napoli á tímabilinu. Liðið er á toppi deildarinnar með 32 stig, fimm stigum meira en Atalanta, eftir tólf umferðir.
Nú er greint frá því að Chelsea, Manchester City og Liverpool hafi öll áhuga á Kvaratskhelia.
Það verður þó engan veginn ódýrt að fá hann. Mun það líklega kosta kaupendur um 100 milljónir evra.
Það þykir afar ólíklegt að Kvaratskhelia fari frá Napoli strax í janúar en það gæti gerst næsta sumar.