Karim Benzema og fyrirsætan Jordan Ozuna eiga von á sínu fyrsta barni saman.
Það er greint frá þessu í spænskum fjölmiðlum.
Benzema er leikmaður Real Madrid á Spáni, þar sem hann hefur verið síðan 2009.
Sóknarmaðurinn hlaut á dögunum Ballon d’Or verðlaunin, sem þykja þau merkustu í boltanum.
Fyrir á Benzema tvö börn með tveimur konum.
Hann á hina átta ára gömlu Meliu með hjúkrunarkonunni Chloe de Launey og þann fimm ára gamla Ibrahim með Cora Gauthier.
Benzema er 34 ára gamall. Hann er þó í fullu fjöri og hefur skorað fimm mörk í sjö leikjum í La Liga á leiktíðinni. Real Madrid er á toppi deildarinnar.