Xavi, knattspyrnustjóri Barcelona og goðsögn félagsins, telur að tveir bestu leikmenn síðustu ára, Cristiano Ronaldo og Lionel Messi, hafi ýtt hvor við öðrum.
Spænski miðjumaðurinn spilaði lengi með Messi hjá Börsungum og oft gegn Ronaldo þegar hann var hjá Real Madrid.
„Gerir samkeppnin Messi betri? Já, ég er viss um það. Ég held hún geri þá báða betri,“ segir Xavi.
Hann telur jafnframt að þeir fylgist náið með hvorum öðrum.
„Cristiano ýtti við honum og gerði hann enn betri. Cristiano og Leo munu líklega ekki viðurkenna þetta en svoleiðis er það. Ég held þeir hafi báðir fylgst með hvorum öðrum. Ef þú ert með keppnisskap viltu verða sá besti. Það er í mannlegu eðli.“
Messi er í dag hjá Paris Saint-Germain og Ronaldo hjá Manchester United.