Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, neitar því að hann sé ‘þreyttur’ í starfinu og sé mögulega á förum eftir tímabilið.
Liverpool hefur byrjað skelfilega í ensku úrvalsdeildinni og er í níunda sæti eftir 2-1 tap heima gegn Leeds um helgina.
Fyrir það tapaði Liverpool 1-0 gegn Nottingham Forest og virðist vera úr leik í titilbaráttunni.
Klopp ræddi við blaðamenn fyrir leik gegn Napoli í kvöld í Meistaradeildinni en Liverpool er búið að tryggja sæti sitt í 16-liða úrslitum.
,,Allt er dæmt út frá mér og það er fínt. Fólk segir að ég líti út fyrir að vera þreyttur en ég er það ekki, ég get ekki notað þá afsökun,“ sagði Klopp.
,,Það er ekki bara mitt starf að vera hér þegar allt gengur upp og einhver afhendir okkur bikar. Það er líka mitt starf að vera hérna þegar tímarnir eru erfiðir.“
,,Við erum að ganga í gegnum erfiða tíma, það er ekki hægt að neita því. Enginn heldur því fram að lífið hér sé frábært í dag en það er bara eitt í stöðunni og það er að ráðast á stöðuna.“