Hjörvar Hafliðason, sjálfur Dr. Football segir ekkert til í því að Jón Guðni Fjóluson sé að ganga í raðir Víkings frá Hammarby.
Greint var frá því í Stúkunni á Stöð2 Sport á laugardag að Jón væri á leið í Víking. „Samkvæmt nýjustu heimildum Stúkunnar þá er Jón Guðni Fjóluson að ganga til liðs við Víkinga og mun spila með þeim á næstu leiktíð. Það eru býsna stórar fréttir,“ sagði Guðmundur Benediktsson í Stúkunni.
Hjörvar Hafliðason tók málið fyrir í Dr. Football í dag. „Gummi Skúbb eins og gárungarnir eru farnir að kalla Gumma Ben. Skúbbarinn, hann er engum líkur,“ segir Hjörvar í nýjasta þætti í hlaðvarpinu.
Hjörvar segir að Gummi hafi farið yfir strikið þarna. „Hann fór yfir strikið um helgina, ég á eftir að senda honum skeyti. Hann sagði um helgina að Jón Guðni Fjóluson væri á leið í Víking, hann er ekkert á leið í Víking.“
„Ef hann fer til Íslands mun hann ræða við öll lið. Það er enginn tenging við Víking.“
Jón Guðni er samningsbundinn Hammarby í Svíþjóð út næstu leiktíð en hann hefur glímt við talsvert af meiðslum í herbúðum félagsins.
Jón Guðni hefur rætt við Víkinga en ekkert meira en það. „Það kom öllum á óvart í fjölskyldunni, samtalið er virkt við marga klúbba en hann ætlar að taka annað ár í Svíþjóð,“ sagði Hjörvar.