Zinedine Zidane verður ekki næsti stjóri Juventus að sögn frönsku goðsagnarinnar Thierry Henry en þeir léku um tíma saman í franska landsliðinu.
Zidane hefur verið án starfs í dágóðan tíma en hann náði frábærum árangri með Real Madrid þar sem hann var áður leikmaður.
Juventus mun líklega losa sig við Massimiliano Allegri bráðlega ef gengið batnar ekki en liðið er úr leik í Meistaradeildinni.
Zidane verður þó ekki næsti maðurinn til að taka við Juventus þar sem hann er að bíða eftir tækifæri hjá franska landsliðinu.
,,Zizou vann Meistaradeildina, Zizou sannaði það að hann getur náð árangri hjá stórliði,“ sagði Henry.
,,Ég ætla ekki að tala um hvort hann gæti unnið hjá Juventus. Ég held að hann sé að bíða eftir landsliðinu svo hann fer ekki þangað.“
,,Ég held að hann sé að bíða eftir einu starfi, aðeins einu. Það er landsliðið. Hann vann Meistaradeildina þrisvar með Real Madrid. Af hverju ættirðu að reyna önnur félög þegar þú getur tekið við landsliðinu?“