Arsenal er vongott um að gera nýja samninga við tvo lykilmenn sína á næstunni. Enskir miðlar segja frá.
Samkvæmt Daily Mail er Arsenal bjartsýnt á að semja við Bukayo Saka, einn sinn allra besta mann, um að skuldbinda sig á Emirates til framtíðar.
Samningur hins 21 árs gamla Saka rennur út eftir næsta tímabil, sumarið 2024. Arsenal vill ekki að hann fari inn á lokaár samnings síns á næstu leiktíð.
Þá hefur William Saliba staðfest að hann hafi rætt við Arsenal um að gera nýjan samning. Hann ræddi við Goal.
Samningur hans rennur einnig út 2024. Frakkinn gekk í raðir Arsenal frá Saint Etienne 2019. Hann var á láni í heimalandinu fyrstu þrjú árin sín og efuðust margir um að hann myndi leika fyrir Arsenal.
Saliba hefur hins vegar farið á kostum á þessari leiktíð og er orðinn lykilmaður í vörn Arsenal. Félagið ætlar sér því að halda honum hjá sér.