Virkilega sorglegt atvik átti sér stað á Englandi nýlega er knattspyrnudómarinn Michael Grant lést.
Grant sá um að dæma leik í skóla í Sleaford á Englandi en um var að ræða leik í yngri flokkum.
Grant var duglegur að dæma leiki á þessu stigi og hafði gaman að en hann lést nýlega eftir að hafa fengið fasta fyrirgjöf í andlitið.
Grant lést vegna heilablæðingar en hann skilur eftir sig bæði eiginkonu og dóttur.
Ekki ósvipað atvik átti sér stað í 3. deildinni hér heima í sumar er dómarinn Tómas Meyer var fluttur á sjúkrahús í leik Augnabliks og KH.
Tómas rotaðist í þeim leik er boltanum var spyrnt í höfuð hans en atvikið átti sér stað eftir aukaspyrnu.
Sjúkrabíll var kallaður á staðinn en leikmenn liðanna voru að fara að hefja endurlífgun þegar Tómas rankaði við sér og hóf að anda á nýjan leik.
Það er einmitt Tómas sem vekur athygli á atvikinu á Englandi og skrifaði Facebook færslu sem má sjá hér fyrir neðan.