Í gær héldu Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna málstofu um framtíð kvennaknattspyrnu. Áhersla var lögð á það hvernig hægt væri að auka hlutfall kvenna í stjórnum knattspyrnudeilda.
Það var vel mætt á málstofuna og umræðurnar góðar. Bogi Ágústsson stýrði þeim.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Artic Adventures, og Helena Jónsdóttir, sem skrifaði meistararitgerð um málefnið, fluttu þá þar erindi.
„Það þekkja það allir að knattspyrnan er karllægur heimur. Sem kona í íþróttum upplifir maður að það er eitthvert óréttlæti í gangi. Það getur verið allt frá því að fá slæma æfingatíma í það að fá engin laun fyrir að gera það sama og karlarnir,“ sagði Helena er hún ræddi við íþróttadeild Torgs í vikunni.
Konur eru um 25% stjórnarmeðlima í íslenskum knattspyrnudeildum, líkt og fram kom á málstofu gærdagsins. Það er talið ljóst að hærra hlutfall þeirra myndi hleypa fleiri sjónarmiðum að borðinu.