Vandræði Cristiano Ronaldo og Erik ten Hag, stjóra Manchester United, virðast vera að baki eftir mjög neikvæða umræðu undanfarið.
Ronaldo strunsaði út af Old Trafford áður en leik United og Tottenham lauk. Ronaldo neitaði að koma inn á í 2-0 sigri og strunsaði svo af vellinum.
Í kjölfarið var Portúgalinn látinn æfa með varaliðinu. Hann sneri hins vegar aftur í byrjunarlið United í 3-0 sigri á Sheriff í Evrópudeildinni í gær.
Ronaldo skoraði þriðja mark Rauðu djöflanna í leiknum.
„Frábær liðsframmistaða og góður sigur. Við stöndum saman. Áfram United!“ skrifaði kappinn á Twitter eftir leik.
Öll vandræði virðast því að baki og Ronaldo aftur kominn í mjúkinn hjá Ten Hag.