Spænskir fjölmiðlar halda því fram að Xavi, knattspyrnustjóri Barcelona, njóti enn trausts stjórnar félagsins.
Barcelona er fallið úr leik í Meistaradeild Evrópu strax í riðlakeppninni, þó svo að ein umferð sé eftir.
Það var ljóst eftir stórsigur Inter á Viktoria Plzen í gær að Börsungar ættu ekki lengur möguleika á að komast í 16-liða úrslit. Leikur liðsins við Bayern Munchen, sem tapaðist 0-3, skipti því ekki máli.
Barcelona mun nú færast yfir í Evrópudeildina og taka þátt í útsláttarkeppninni þar eftir áramót.
Einhverjir telja að pressa sé á Xavi, enda mikill skaði fyrir félagið að komast ekki lengra í keppninni. Félagið á, eins og flestir vita, í miklum fjárhagserfiðleikum.
Stjórnendur félagsins gerðu ráð fyrir því í fjárhagsáætlunum sínum að komast að minnsta kosti í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu og tryggja sér um leið 25 milljónir evra.
Þessi fyrrum miðjumaður nýtur hins vegar enn trausts ef marka má nýjustu fréttir.